Skip to content

Snemmsónar

Snemmsónar

Ómskoðun sem gerð er fyrir 12 vikna meðgöngu kallast snemmsónar / snemmómskoðun.

Tilgangur skoðunarinnar er að staðfesta þungun í legi og meta meðgöngulengd. Í skoðuninni er athugað hvort fóstrið sé á réttum stað (inni í leginu) og ef fleiri en eitt fóstur sjást er fjöldi fóstra talinn. Hjartsláttur fósturs metinn og meðgöngulengd áætluð með mælingu á stærð fósturs. Hjartsláttur er metinn sjónrænt en ekki mælt með að hlusta fósturhjartslátt fyrir 12. viku meðgöngu þar sem það getur valdið skaða á viðkvæmum vefjum fóstursins.*

Skoðað er í gegnum kviðvegginn (rétt fyrir ofan lífbein). Mælt er með að hafa fulla þvagblöðru til þess að myndgæðin verði sem ákjósanlegust. Þetta þýðir að kona sem kemur í skoðun eigi helst ekki að hafa þvaglát 2 klukkustundum fyrir ómskoðunina, og drekka 1-2 glös af einhverjum vökva.

Hjá 9 mánuðum er boðið upp á þessa skoðun frá 7 vikum til viku 12. Barnshafandi konum er velkomið að bóka sig í snemmsónar eftir viku 12 upp að viku 16 ef þær vilja koma í auka skoðun.

Ljósmæðurnar Signý Dóra Harðardóttir, Sigrún Ingvarsdóttir, Ásthildur Gestsdóttir og Vala Guðmundsdóttir sjá um snemmómskoðanir hjá 9 mánuðum.  Þær hafa sérhæfingu í ómskoðunum á meðgöngu og starfa með leyfi Landlæknis við snemmómskoðanir.

Hægt er að bóka tíma hér efst á síðunni, velja Snemmsónar.

Einnig er hægt að senda þeim tölvupóst með fyrirspurnum á:
signydora@9manudir.is og sigruningvars@9manudir.is

Verð kr. 14.500.- kvöld og helgartímar kr. 16.000.-


Það getur komið fyrir að við 7 vikna meðgöngu sjáist ekki fóstur né hjartsláttur. Þá getur verið að konan sé mögulega ekki þunguð, að meðgangan sé styttri á veg komin en áætlað var eða annað. Í þessum tilfellum verður boðið upp á nýja skoðun 2 vikum seinna.

*Nákvæm meðgöngulengd er metin í 12 vikna ómskoðun sem fer fram á Fósturgreiningardeild Landspítalans (fyrir Höfuðborgarsvæðið).